154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Þessu til viðbótar þá langar mig að spyrja út í það sem ráðherra kom hér inn á áðan, sýn hans á svokallaða útgjaldareglu. Ég veitti því athygli að í desember síðastliðnum var Sjálfstæðisflokkurinn með það á samfélagsmiðlum sínum að skynsamlegt væri að innleiða útgjaldareglu til að hemja útgjaldavöxt ríkissjóðs. Mig langar að spyrja hvort ráðherrann sjái fyrir sér svona í fyrirsjáanlegri framtíð að þetta komi fram sem tillaga til þingsins, væntanlega frá hæstv. ráðherra, eða hvort þetta sé verkefni sem bíði næsta kjörtímabils.

Í öðru lagi langar mig að spyrja í seinna andsvari út í útgjöld til útlendingamála sem eru áætluð núna 15,3 milljarðar á næsta ári. Ég held að ég hafi heyrt hæstv. ráðherra svara því til í viðtali nýlega að þegar hann kom í sitt ráðuneyti hafi þessi tala verið rétt um 500 milljónir. Liggur fyrir markmið um það með hvaða hætti stjórnvöld sjá þennan útgjaldaþátt þróast á næstu árum að teknu tilliti til þeirra frumvarpa sem nú hefur verið tilkynnt að verði lögð fram á þessu þingi? Við verðum að hafa það í huga að þessi útgjöld eru auðvitað bara bein útgjöld ríkissjóðs. Heildarútgjöld og afleiddur kostnaður er án nokkurs vafa margfaldur miðað við það sem þarna kemur fram.

En þetta tvennt langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í, hvers við megum vænta varðandi mögulega reglusetningu er tengist útgjaldareglu og hins vegar sýn hæstv. ráðherra á þróun þess útgjaldaliðar sem tengist útlendingamálum og er núna tilgreindur 15,3 milljarðar.